Ný önn, vírusar og fleira.

Jæja gott fólk, nú er ég búinn að reyna að blogga tvisvar síðan 20. janúar en í bæði skiptin lukkaðist það nú ekki alveg að koma því frá blessaðri tölvunni. Nú eru málin eitthvað betri. Ég var tilneyddur að setja upp Windows XP aftur á lappann minn þar sem mörg af þeim forritum sem við þurfum að nota í vetur og næsta vetur eru bara til á Windows. Ég verð víst að beygja mig undir vilja fjöldans.
Ég var með Linux frá SUSE sem virkaði fínt fyrir svona gutlara eins og mig, en ég skal nú alveg viðurkenna það að Windows XP er bara alveg ágætt. Hins vegar byrjaði þetta ekki vel þar sem ég fékk vírus á vélina strax og ég setti hana upp. Gaman, gaman, ég hef held ég aldrei fengið vírus á tölvu áður, þ.e. ekki viljandi :).
Ég get vissulega sjálfum mér um kennt því að ég var ekki með neinar varnir uppi og ekki búinn að uppfæra allan öryggishugbúnað fyrir Windows XP. Það sem ég hef predikað yfir öðrum reyndist nákvæmlega það sem kom mér um koll. Vélin sýktist það mikið að ég þorði ekki öðru en að setja hana upp á nýtt. Fékk litlar 38 pöddur inn á vélina á einhverjum mínútum. Þær eru nefnilega svo félagslyndar þessar tölvuveirur að nú smita þær ekki bara kerfið heldur ná í aðrar veirur líka í gegnum Internetið. Svona nokkurs konar félagsmiðstöð tölvuveira. En nú er vélin kominn upp á ný með allar varnir sem ég finn.

Nú er ný önn hafinn hjá mér og hófst raunar 31. jan síðastliðinn með ferð til Árósa. Þar sem við vorum í þrjá daga á námskeiði um þarfagreiningu (Software requirements) og svo þegar heim var komið þá unnum við verkefni sem var svo skilað inn á föstudeginum. Efnið var gríðarlegt, ca. 300 powerpoint glærur og bók upp á ca. 500 síður, sem auðvitað enginn náði að lesa til hlítar. Á föstudeginum var svo video fundur milli okkar í Odense og þeirra í Árósum og þetta tók allan daginn. Þarna ræddum við verkefnin og gerðum upp námskeiðið. Ansi skemmtilegt allt saman en ansi mikið sem þurfti að stimpla inn í gamlan haus.

Svo hófst "venjuleg" kennsla síðasta mánudag í fögum eins og verkefnastjórnun (project ledelse), kerfis þróun/hönnun (system udvikling) og fleira og fleira.
Þetta er allt saman mjög áhugavert og oft á tíðum eitthvað svo "lógískt". Svo endar kennsla eftir 10 vikur og við tekur mánaðarhópverkefni þar sem við sýnum hvað við höfum lært í öllum þessum fögum. Fögin sem sagt styðja hvert annað að einu eða öðru leyti og sum staðar "overlappar" kennslan. Afsaka slangurnotkun.

Já, við erum að fara á U2 í sumar ef einhver skyldi hafa misst af því...vantar pössun...einhver, einhver!!!

Alexander er að komast meira og meira inn í hverfisskólann og hefur mætt einn og einn dag aðallega til að fara í ferðir með tilvonandi bekknum sínum. Kennarinn hans, Lars, er einstaklega viðkunnalegur maður með frekar mikinn áhuga á Íslandi og þá sérstaklega Þórsmörk. Hann hefur heimsótt klakann 6 sinnum minnir mig.

Jæja nú heldur námið áfram. Þarf að lesa óþægilega mikið núna fyrir næsta tíma og reyna að koma upp öllum forritum sem þarf fyrir önnina.

bið að heilsa í bili,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Sæll vinur, ef að það gengur ekki upp þetta með að fá pössun, þá væri ég alveg til í að kaupa af þér þessa miða.
Mvh. Gnýr

Vinsælar færslur